Sex nýir ökukennarar á Suðurnesjum
Sex nýir ökukennarar hafa tekið til starfa á Suðurnesjum, fjórar konur og tveir karlar en þau luku þriggja anna námi á háskólastigi nýlega. „Við erum stútfull af þekkingu,“ sögðu þau við Víkurfréttir en fimm þeirra eru búsett í Reykjanesbæ, ein í Garði. Þau munu öll starfa á Suðurnesjum.
Nýju ökukennararnir eru þær Telma Dögg Guðlaugsdóttir, Margrét Arna Eggertsdóttir, Hildur Guðjónsdóttir og Sigurbjörg Ólafsdóttir og karlarnir tveir eru þeir Róbert Sigurðarson og Kristján Freyr Geirsson.
Víkurfréttir hitti þau saman og í stuttu spjalli sögðust þau öll hafa haft áhuga á ökukennarastarfinu í nokkurn tíma en tilviljun ein réði því að þau hófu námið á sama tíma hjá Endurmenntun Háskóla Íslands árið 2018. Námið sögðu þau mjög skemmtilegt en krefjandi og samanstendur af þrettán lotum og mikilli verkefnavinnu, auk verklegrar æfingakennslu. Námið er þriggja missera til 30 ECTS háskólaeininga. „Við vorum flest að hittast í fyrsta skipti en við Suðurnesjafólkið smullum saman í frábærum hóp og erum orðnir góðir vinir eftir námið,“ sögðu þau.
Auk verklegra ökutíma, samanstendur ökukennsla í dag af bóklegum námskeiðum sem nefnast Ökuskóli 1, 2 og 3 og æfingaakstri. Í Ökuskóla 3 læra nemendur um svokallaðan varnarakstur og reyna fyrir sér á sérstakri kennslubraut þar sem æfður er akstur við erfið skilyrði, til dæmis í bleytu og hálku.
Aðspurð um kostnað við að læra á bíl segja þau vera um og yfir 300 þúsund krónur en misjafnt er hvað það þarf að taka marga verklega ökutíma. Lágmarks tímafjöldi er sautján, þó er það ekki óalgengt að tímafjöldinn sé á bilinu 17–25 en afar misjafnt er hvernig þessi þáttur liggur fyrir ungmennum í dag, sem og að taka lokaprófið sem þau sækja í skátaheimilinu í Keflavík.
Flestir nýju ökukennararnir hafa þegar hafið störf, en þeir útskrifuðust 6. desember 2019. Áhugavert er að nefna að einn þeirra, Róbert Sigurðarson, mun ekki aðeins kenna íslensku- eða enskumælandi ökunemum heldur einnig spænskumælandi sem þess þurfa. Margir útlendingar, en þeir eru fjórðungur íbúa á Suðurnesjum, þurfa að endurtaka bóklegt og verklegt ökupróf eftir að þeir flytjast til Íslands, séu þeir frá löndum utan Evrópusambandsins.
Þau eru öll sammála um að með breyttu fyrirkomulagi á ökunáminu, með meiri fræðslu og æfingaakstri hefur alvarlegum bílslysum fækkað.
Á Suðurnesjum eru í dag starfandi 21 ökukennarar með þessum sex nýju, en síðast útskrifuðust þrír ökukennarar, búsettir á Suðurnesjum, árið 2018.